SEM BETUR FER ER TIL FÓLK SEM TRÚIR Á ÆVINTÝRI ...

Horfa á auglýsingu
SKRUNAÐU NIÐUR TIL AÐ SJÁ MEIRA

... YFIR 20 BYGGINGAR HAFA RISIÐ FYRIR HAPPDRÆTTISFÉ

800 milljónir

hafa runnið til byggingaframkvæmda, viðhalds, tækjakaupa og eflingar rannsóknarstofa Háskóla Íslands á hverju ári að meðaltali undanfarin 20 ár. Á 80 árum hefur Happdrætti Háskóla Íslands átt stóran þátt í uppbyggingu háskóla í fremstu röð og fjármagnað 22 byggingar skólans. Blómstrandi samfélag vísinda og fræða nýtur góðs af á hverjum degi.

150 milljónir

í formi leyfisgjalds, renna auk þess árlega til Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Rannís, sem ætlað er að treysta stoðir íslensks þekkingarsamfélags með stuðningi við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu.

1937
Setberg

Setberg var fyrsta húsið sem reist var fyrir happdrættisfé á vegum Háskóla Íslands, en það var tekið í notkun haustið 1937. Húsið var í fyrstu kallað Atvinnudeildarhús, síðar Jarðfræðahús, og enn seinna Setberg. Núna hýsir það skrifstofur, bóka- og heimildasafn Þjóðminjasafns Íslands.

Nánar
1940
AÐALBYGGING
HÁSKÓLA ÍSLANDS

Aðalbygging Háskóla Íslands hýsir stjórnsýslu skólans og guðfræðideild, auk vinnuherbergja fyrir kennara í heimspeki. Enda þótt margir tengi samfellda sögu háskólans við þessa einkennisbyggingu hans hafði skólinn verið við lýði í nálega þrjá áratugi áður en aðalbyggingin kom til sögunnar. 

Nánar
1948
Íþróttahús
HÁSKÓLA ÍSLANDS

Íþróttafélag stúdenta var stofnað 1928 og var íþróttaskylda stúdenta lögleidd röskum áratug síðar. Í byrjun fór íþróttaiðkun stúdenta að nokkru leyti fram í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu, en fékk loks inni í Íþróttahúsi Háskóla Íslands sem byggt var á árunum 1946–1947.

Nánar
1956
Eirberg

Eirberg á Landspítalalóðinni hýsir hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, tölvuver, kennslustofur og skrifstofur. Það var áður hús Hjúkrunarskóla Íslands og vígt sem slíkt árið 1956, en var fært undir Háskólann 1986 og hefur æ síðan hýst hjúkrunarfræðideild skólans. 

Nánar
1961
Háskólabíó

Um miðjan sjötta áratug síðustu aldar var farið að huga að því að byggja Háskólabíó, en á þeim tíma var mjög ábatasamt að reka kvikmyndahús. Húsið var tekið í notkun á hálfrar aldar afmæli skólans 1961, en stækkað mjög 1990. Það hýsir enn bíósýningar, auk fyrirlestra, funda og tónleika.

Nánar
1963
Aragata 9

Vöxtur Háskóla Íslands hefur stöðugt kallað á aukið húsnæði. Sú var einnig staðan þegar háskólanum bauðst prófessorbústaðurinn að Aragötu 9 til kaups, en í húsinu var lengi les- og félagsaðstaða. Um nokkurt skeið hafði Íslensk málstöð aðsetur í húsinu og síðar Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Nánar
1966
Hús Raunvísindastofnunar
HÁSKÓLA ÍSLANDS

Fyrsta skóflustungan að húsi Raunvísindastofnunar var tekin árið 1964, en það var tekið í gagnið 12. júlí árið 1966. Það hýsti rannsóknarstofur fyrir eðlis- og efnafræði og vinnustofur fyrir séfræðinga, auk skrifstofa, bókasafns, kaffistofu og fundarherbergja. 

Nánar
1966
Neshagi 16

Árið 1995 keypti Háskóli Íslands Neshaga 16 undir skrifstofur kennara og stofnana skólans. Lyfjafræðideild og fleiri deildir nýta kennslustofur að Neshaga 16. Húsið var byggt árið 1966.

Nánar
1969
Árnagarður

Lög um Handritastofnun Íslands voru sett 1962, en þá hafði áhugi á handritum þjóðarinnar aukist mjög. Þegar farið var að huga að húsnæði fyrir stofnunina þótti vel til fundið að hafa hana á svæði Háskóla Íslands. Nafn hússins vísar til helsta handritasafnara þjóðarinnar, Árna Magnússonar.

Nánar
1972
Lögberg

Lögberg er aðsetur lagadeildar Háskóla Íslands, en sögu þess má rekja aftur til vormánaða 1969 þegar háskólaráð ákvað að reisa byggingu á milli Nýja-Garðs og Aðalbyggingar. Við hönnun hússins var lögð áhersla á að það væri nokkur samsvörun á milli þess og Atvinnudeildarhússins.

Nánar
1972
VR-I

Snemma árs 1969 var farið að huga að framtíðarhúsnæði fyrir VR, verkfræði- og raunvísindagreinar Háskólans. Ákveðið var að hafa þær vestan Suðurgötu. Þrír áfangar af fimm hafa að mestu verið reistir. Áfangarnir hafa fengið heitin VR-I, VR-II og VR-III. Fyrsti áfanginn var reistur fyrir eðlis- og efnafræði.

 

Nánar
1973
Aragata 14

Sagan um prófessorabústaðinn Aragötu 14 er svipuð og sagan um Aragötu 9. Háskóla Íslands bauðst húsið til kaups í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar og Háskólinn var þá sem fyrr í húsnæðisþröng. Húsið er nú að mestu notað fyrir vinnuherbergi í þágu starfsfólks á Heilbrigðisvísindasviði.

Nánar
1975
VR-II

Í framhaldi af sérstakri byggingu fyrir eðlis- og efnafræðina var tekið til við að byggja kennsluhúsnæði fyrir verkfræðigreinar. Aðsetur verkfræðinnar hafði hingað til verið í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. VR-II var reist 1975 og hafa jafnt Verkfræðideild og Raunvísindadeild afnot af húsinu.

Nánar
1983
Læknagarður

Aðsetur Tannlæknadeildar og Læknadeildar Háskóla Íslands er í Læknagarði. Staðsetning hans, svo fjarri háskólasvæðinu sem raun ber vitni, skýrist af þeim stórfelldu áformum sem uppi voru á miðjum áttunda áratug síðustu aldar um stækkun Landspítalans niður í Vatnsmýrina.

Nánar
1985
Oddi

Félagsvísindadeild og Hagfræðideild Háskóla Íslands hafa aðsetur í Odda, en hann var reistur í tveimur áföngum um miðjan og seinni hluta níunda áratugar síðustu aldar. Húsið sækir nafn sitt til Sæmundar fróða Sigfússonar prests og goðorðsmanns í Odda á Rangárvöllum.

Nánar
1987
Sóltún

Háskólinn eignaðist Sóltún 1 árið 1987, en hafði leigt efri hæð hússins frá 1976. Læknadeild hafði þar aðstöðu fyrir kennslu í heilbrigðisfræði, félagslækningum og heimilslækningum en jafnramt var þar um tíma örverufræðistofa líffræðiskorar. 

Nánar
1987
VR-III

Í VR-III eru tilraunaskálar Verkfræðideildar og rannsóknaraðstaða á sviði eðlisfræði. Nokkur bið varð á því að þessi þriðji áfangi VR-bygginganna yrði reistur og verður hún rakin til fjárskorts, enda húsakostur af því tagi sem raungreinar þurfa yfirleitt kostnaðarsamar og flóknar í útfærslu.

Nánar
1988
Tæknigarður

Tæknigarður er aðsetur hluta Raunvísindastofnunar, Endurmenntunar Háskóla Íslands og Sjávarútvegsstofnunar, sem síðar sameinaðist Stofnun Sæmundar fróða, auk þess sem nokkrir doktorsnemar hafa þar aðstöðu. Tæknigarður stendur við Dunhaga, rétt hjá Háskólabíói.

Nánar
1991
Hagi

Í Haga er aðsetur Lyfjafræðideildarog kennara í jarðeðlisfræði. Lyfjafræði var um skeið til húsa í viðbyggingu við Íþróttahús Háskólans og í norðurenda kjallarans í Aðalbyggingu. Húsnæðið fullnægði ekki kröfum frá heilsufarslegu sjónarmiði.

Nánar
1996
Nýi-Garður

Í Nýja-Garði, aðsetri hluta heimspekideildar, voru einstaklingsherbergi fyrir stúdenta um langa hríð. Húsið var byggt á heimsstyrjaldarárunum síðari og skipti um hlutverk þegar Bretar lögðu Gamla-Garð undir sig eftir hernám landsins í maí 1940. Þar með urðu stúdentar að fá inni á Nýja-Garði.

Nánar
2003
Askja

Í Öskju er miðstöð líffræði, jarðfræði og Norrænu eldfjallastöðvarinnar. Fyrsta skóflustungan að húsinu var tekin í byrjun janúar 1996. Íslenska ríkið átti að sjá Norrænu eldfjallastöðinni fyrir húsnæði, en sambýli hennar við Jarðfræðideild Háskólans var talin svo brýn að hún fékk einnig inni í Öskju.

Nánar
2007
Háskólatorg

Háma, sem er matsölustaður fyrir stúdenta og háskólakennara, er í húsinu en að auki er þar að finna Félagsstofnun stúdenta, Bóksölu stúdenta, kennslustofur, lesstofur og húsnæði fyrir miðlæga stjórnsýslu. Í hluta hússins, sem ber nafnið Gimli, er Viðskiptafræðideild til húsa.

Nánar
2007
Gimli og Tröð

Háskólatorg, Gimli og Tröð eru þrjár samtengdar byggingar og oft eru þær nefndar einu nafni Háskólatorg og eru alls um 10.000 fermetrar. Háskólatorg hýsir á þriðja hundrað starfsmenn og um 1.500 stúdenta á hverjum tíma, auk gesta. 

Nánar
GERÐ AUGLÝSINGAR

Í tilefni af 80 ára afmæli Happdrættis Háskóla Íslands var afráðið að útbúa sjónvarpsauglýsingu sem sýndi hvernig háskólinn hefur vaxið og dafnað í krafti alls þess happdrættisfjár sem safnast hefur frá því fyrsta peningahappdrætti landsmanna hóf göngu sína í ársbyrjun 1934. Auk bygginganna sem að ofan eru taldar hefur happdrættið fjármagnað margskonar viðhald og tækjakaup og eflt rannsóknarstofur skólans. Auk þess rennur föst upphæð árlega til Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Rannís, sem ætlað er að treysta stoðir íslensks þekkingarsamfélags með stuðningi við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu.

Hér til hliðar má sjá stutta mynd um gerð auglýsingarinnar. Auglýsingin var unnin af starfsfólki auglýsingastofunnar PIPARS\TBWA í samvinnu við þrívíddarlistamennina hjá RVX (Reykjavík Visual Effects) og Erlu Maríu Árnadóttur myndskreyti sem lagði til allar vatnslitateikningar. Óskar Einarsson samdi tónlist, Margrét Vilhjálmsdóttir leikkona las og Birgir Tryggvason hljóðsetti.